Á Íslandi losar hver stóriðja eða orkuver mengandi efni í andrúmsloft af stærðargráðunni hundruð tonn til milljónir tonna á ári. Mengandi starfsemi ber að uppfylla skilyrði í starfsleyfi, eins og að nota bestu fáanlegu tækni (BAT) til að lágmarka staðbundna mengun. Dæmi:
- Flúoríkt ryk er hreinsað úr útblæstri álvera í þurrhreinsivirkjum, einnig kölluð pokahús, og endurnýtt í framleiðsluna.
- Jarðvarmaver losa gufur sem innihalda m.a. brennisteinsvetni sem er þekkjanlegt af lyktinni kennd við fúl egg. Í dag fer fram tilraunaverkefnið gas í grjót sem skilar H2S (og CO2) til baka í berg.
- Álver losa umtalsvert magn af brennisteinsdíoxíðum. Ekki er gerð krafa um vothreinsun m.a. vegna áhyggja um að PAH efni berist úr útblæstri í yfirborðsvatn og sjó. SO2 getur því mælst hækkað í nálægð við stóriðju, meðan það er sjaldnast hátt við stofnbrautir.
- Losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju heyrir undir evrópska viðskiptakerfið ETS. Markmiðið er að fækka losunarheimildum um 43% árið 2030 miðað við 2005.
- Hægt er nálgast tölur um losun mengandi efna í umhverfisskýrslum eða grænu bókhaldi stórfyrirtækja, sjá t.d. síðu umhverfisstofnunar um mengandi starfsemi.
Stærsti losandi loftmengunar á Íslandi er ekki af mannavöldum heldur eldgos:
- Svifryksstrókarnir frá Eyjafjallagosinu 2010 og Grímsvatnagosinu 2012 bárust langt eins og sjá mátti á gervihnattamyndum. Flugumferð stöðvaðist í heimsálfum.
- Meira SO2 var losað daglega í Holuhraunsgosinu en öll ríki Evrópusambandsins þegar verst lét 2014. Umfangsmikil spálíkön voru keyrð á meðan eldgosinu stóð, en gildin mældust hæst í 10 milligrömmum á rúmmetra sem eru 50 föld heilsuverndarmörk.
Sandfok af hálendinu er önnur náttúruleg uppspretta mikillar mengunar með stórt áhrifasvæði. Ólíkt stóriðju sem starfar allan ársins hring vara eldgos og sandfok oftast ekki lengi og svæðin útsett fyrir mengun breytast með vindátt. Jafnframt hjálpar þegar þessar uppsprettur eru staðsettar tugi til hundruð kílómetra frá byggð þannig að mengunin hefur náð að þynnast eitthvað út. Rykrannskóknafélag Íslands heldur utan um rannsóknir á ryki utan þéttbýlis á Íslandi, sem má fylgjast með hjá IceDust vefsíðunni.
Bent hefur verið á að aðrir losendur geta valdið umtalsverðri mengun tímabundið. Skemmtiferðaskip sem koma í auknum mæli til Íslands voru talin losa fínt svifryk á við þrjú til fimm þúsund bíla. Náttúrufræðistofa Íslands hafði frumkvæði af mælingum í Sundahöfn árið 2017 sem sýndu verulega hækkun á örfínum brennisteinsríkum ögnum (sóti). Vísbendingar eru um að flugeldar losi um 10 tonn af svifryki í andrúmsloft um áramót, sem er í kingum tífalt meira ryk en öll álverin á Íslandi losa á dag.