Lausnir

Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 setur rammann fyrir heilnæm lífsskilyrði og umhverfi á Íslandi. Loftgæðaáætlun hreint loft til framtíðar frá 2017 skilgreinir aðgerðir stjórnvalda til þess að (1) fækka árlegum ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi úr 80 niður í 5 eða færri; (2) svifryk af völdum umferðar fari aldrei yfir skilgreind heilsufarsmörk; (3) að ársmeðaltal brennisteinsvetnis verði áfram undir skilgreindum mörkum. Á næstu árum stendur til að auka upplýsingagjöf til almennings, bæta vöktun og eftirlit, hrinda af stað viðbragðsáætlunum við hárri skammtíma mengun, og endurskoða lagaleg stýritæki, sem eru einkum af þrennum toga:

  • Heilsuverndarmörk eru hámarksstyrkur mengunar í andrúmslofti til að vernda viðkvæma þjóðfélagshópa og stuðla að betri heilsu. Einnig má setja viðmiðunarmörk til að vernda umhverfi.
  • Losunarmörk eru mörk fyrir leyfilega losun í framleiðslu eða rekstri. Gott dæmi er losunarmörk á nýja bíla, sem komust í hámæli 2015 í Volkswagen hneykslinu, þegar framleiðandinn svindlaði á útblástursprófum til að fela háa NOx mengun.
  • Mengunarskattar. Sem dæmi nagladekkjaskattur var innleiddur í Osló.

Hér að neðan er greint frá öðrum gerðum af stýritækjum til að draga úr loftmengun.

Skipulagsleg stýritæki eru að staðsetja mengandi starfsemi og umferð fjarri íbúabyggð. Einnig má dreifa umferðinni til að minnka mengun staðbundið.

Umferðarstýritæki eins og að lækka hámarkshraða ökutækja og stýra umferðarljósum getur minnkað útblástur og myndun götusvifryks. Þá má rykbinda og hreinsa vegi.

Framleiðslustýritæki miða að því nýta sem best auðlindir t.d. með endurnotkun og endurvinnslu. En mest áhersla er á að minnka magn og skaðsemi efna í framleiðslu og rekstri, því ekki þarf að losa eða hreinsa mengun sem ekki er til. Dæmi:

  • Stýrð brennsla. Lágmarka má losun loftmengunar með því að stýra hlutfalli eldmats og súrefnis í brennsluofni (eða vél), hitastigi við brennslu og tímalengd brennslu. Í sumum tilfellum eru gösin úr forbrennslu brennd á hærra hitastigi í eftirbrennslu til að lágmarka myndun díoxíns.
  • Hreinni eldmatur: Blý var bannað sem íbótarefni í bensín. Brennisteinsinnihald kola var lækkað til þess að draga úr myndun SO2, sem hvarfast í brennisteinssýru og veldur súru regni.

Hreinsitækni. Ef ekki er hægt að komast hjá myndun loftmengunar, þá má hreinsa útblástur með eðlis-, efna- og/eða líffræðilegum ferlum. Þurrhreinsivirki (pokahús) safna flúrorríku ryki í áliðnaði. Vothreinsivirki

  • aðskilja metangas frá hauggasi, til að hægt sé að nýta það sem eldsneyti.
  • leysa gastegundirnar CO2 og H2S í vatni svo hægt sé að dæla þeim niður í bergrunn, í verkefni sem kallast gas í grjót.

Losun: Útblástur frá verksmiðjum er losaður um skorstein nægilega háan til að mengun þynnist út áður en hún berst niður í öndunarhæð. Passa þarf að hvirflar geta myndast fyrir aftan fjöll eða í kringum byggingar sem dregur og festir mengun frá skorsteini niður við jörðu.