Heilsa

Umherfisstofnun metur að megi rekja allt að 80 ótímabær dauðsföll til svifryks (PM2,5) á hverju ári og færri en fimm dauðsföll vegna NO2 og O3. Loftmengun dregur úr lífsgæðum með því að valda sjúkdómum og ýta undir undirliggjandi sjúkdóma eins og öndunarfæra-, hjarta-, taugasjúkdóma og krabbamein. Hár styrkur svifryksmengunar getur valdið heilablóðföllum, hjartaáföllum, hjartsláttartruflunum, hærri blóðþrýstingi jafnvel hjá yngri einstaklingum (undir 55 ára) og skyndidauða. Loftmengun getur líka haft neikvæð áhrif á hormóna- og æxlunarkerfið. Börn eru sérstakur áhættuhópur fyrir loftmengun og konur eru viðkvæmari en karlar. Þessar niðurstöður byggja á rannsóknum erlendis frá. Gerðar hafa verið nokkrar rannsóknir til þess að meta hvort loftmengun á Íslandi hafi áhrif á heilsu. Hér verður stuttlega greint frá nokkrum þeirra.

Ragnhildur Finnbjörnsdóttir rannskaði hvort merkja mætti verri heilsu íbúa á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar hárrar loftmengunar. Fylgni fannst á milli úttektar lyfja gegn hjartaöng og daga með hárri NO2 eða O3 mengun frá umferð. Þá fundust möguleg neikvæð tengsl milli brennisteinsvetnis og heilsu manna, einkum ef meðastyrkur efnisins á sólarhring fór yfir lyktarmörk, 7 µg/m3.

Hanne Krage Carlsen fann tölfræðilega marktækt samband á milli þriggja daga meðaltals H2S og PM10 og daglegs fjölda einstaklinga sem leysti út lyf með þriggja daga seinkun. Þá reyndust hæstu klukkustundir NO2 og O3 mengunar einnig hafa marktæk aukin áhrif á lyfjanotkun.

Umfangsmikil rannsókn hefur verið framkvæmd á áhrifum eldfjallagoss á heilsu manna. Samantekt á birtingum úr rannsókninni má finna á vefsíðu Stofnunar Sæmundar Fróða.

Vanda Hellsing rannsakaði loftgæði innadyra í grunnskólum í Reykjavík og komst að því að þörf væri á betrumbótum. Sér í lagi var hár styrkur koltvíoxíðs í sumum kennslustofum þrátt fyrir að loftskipti voru innan viðmiða. Mikilvægt er að tryggja nægilegt súrefnisflæði með því að lofta vel fjölmenn rými.

Smæð Íslands er takmarkandi þáttur í lýðheilsurannsóknum því það þarf stórt úrtak til að geta leiðrétt fyrir öðrum þáttum en loftmengun á heilsu. Annar takmarkandi þáttur er kokteiláhrif mismunandi loftmengunarvalda. Vitað er að áhrif brennisteinsdíoxíðs magnast sé það samhliða annarri mengun eins og svifryki. Mögnunaráhrif milli brennisteinsvetnis og umferðarmengunar (og málmmengunar) eru ekki skilin.

Hægt er að lesa nánar um áhrif loftmengunar á heilsu: