Bílaútblástur

Efnasamsetning PM10 veturinn 2015 (Heimild: Páll Höskuldsson og Arngrímur Thorlacius, 2017)

Við bruna eldsneytis myndast svifryk og gös sem eru mæld reglulega og borin saman við heilsuverndarmörk. Svifryks- og nituroxíð mengun var talin óvenjulega há í Reykjavík að mati bandaríska Fulbright sérfræðingsins Larry Anderson þegar horft er til smæðar samfélagsins, og að húshitun sé með endurnýjanlegum orkugjöfum. Mengunin mælist hæst við stofnbrautir sem gefur til kynna að hún komi frá umferð.

Svifryk fer yfir heilsuverndarmörk 7-20 daga á ári vegna umferðar í Reykjavík. Nýleg rannsókn gefur til kynna að 30% ryksins sé sót, sem er krabbameinsvaldandi fínar agnir sem myndast við eldsneytisbruna. Styrkur sóts meðfram stofnbrautum er á pari við stórborgir skvt. Bergljótu Hjartardóttur, MS nema við Háskóla Íslands. Skref hafa verið tekið í að þróa aðferðarfræði til að meta sót.

Bílaeign Íslendinga hefur vaxið mikið. (Mynd: Hagstofa Íslands)

Köfnunarefnisoxíð (NOx) hækka á háanna-umferðartímum og á köldum vetrarstillum þegar stöðugt loft hamlar útþynningu mengunar. Undanfarna áratugi hefur bílafjöldi aukist og hækkandi útblástur er merkjanlegur í hærri gildum nituroxíða. NO2 fór amk. 8 sinnum yfir 24-klst heilsuverndarmörk og 5 sinnnum yfir klukkustundar-heilsuverndarmörk árið 2019 skvt. Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Nituroxíð geta hvarfast við súrefni og myndað óson (O3).

Aðrar algengar gastegundir sem myndast við bruna eru brennisteinsdíoxíð (SO2) og kolmonoxíð (CO). Þær mælast yfirleitt vel innan heilsuverndamarka við stofnæðar á Íslandi.

Í útblæstri geta leynst heilsuspillandi efni. Þau eru snefilefni sem þýðir að þau eru í mun lægri styrk en framangreindar lofttegundir (NOx, SO2, CO). Í þessum flokki eru fjölarómatísk kolvetni (PAH) og ofureitraða þrávirka lífræna efnið díoxín. Þá geta málmar verið í útblæstri. Slík heilsuspillandi snefilefni falla ekki undir reglubundið eftirlit. Hins vegar hafa verið gerðar stakar rannsóknir til að meta styrk þessara efna. Sem dæmi fóru fram mælingar á PAH og málmum í kringum áramótin 2018-2019. Díoxín mengun var mælt í umhverfinu og í matvöru í tengslum við rekstur sorpbrennslustöðva á Íslandi.